Month: september 2022

Þegar ferðalagið þitt verður dýrara en þú gerðir ráð fyrir – varastu (falinn) aukakostnað

Hækkandi orkuverð í heiminum er eitt af þeim atriðum sem valda mörgum áhyggjum og hefur leitt til þess að margir neytendur hafa þurft að draga úr kostnaði á ferðalögum. Það er því fremur hvimleitt þegar falinn aukakostnaður kemur í ljós á meðan þú ert í vel verðskulduðu ferðalagi. Alþjóðadagur ferðaþjónustunnar (WorldTourismDay) er haldinn þann 27. september á hverju ári. Í tilefni hans þá hefur ECC-Netið tekið saman upplýsingar sem fræðir neytendur um hvernig þeir geta fundið og forðast falinn aukakostnað.  

Aukakostnaður hjá hótelum

Margir kannast efalaust við að vilja fara beint upp á hótelherbergi til að slaka á eftir langt flug og ferðalag. Stundum þýðir það að þú þurfir að innrita þig áður en komið er að auglýstum innritunartíma. Gjarnan er þó rukkað aukalega fyrir snemminnritun. Einnig er algengt að rukkað sé aukalega fyrir bílastæði og morgunmat. Þá er í mörgum löndum rukkaður sérstakur ferðamannaskattur, svo sem í Austurríki, Belgíu, Búlgaríu, Frakklandi, Þýskalandi og á Möltu.

Jafnframt rukka sum „lággjalda“ hótel viðskiptavini sína sérstaklega fyrir afnot af öryggisskápum og sjónvörpum í herbergjum. Gjarnan er rukkað sérstakt gjald fyrir aðgang að háhraða interneti og á Spáni eru gestir stundum rukkaðir sérstaklega fyrir að fá að geyma farangur sinn í farangursgeymslu. Í Hollandi gætir þú þurft að greiða sérstaklega fyrir afnot af hárþurrku. Ef þú ætlar að fá lánaðan baðslopp í Frakklandi og Finnlandi, gætir þú þurft að greiða sérstaklega fyrir það.

Önnur gjöld: Á Spáni, Frakklandi og Ítalíu gæti verið rukkað sérstaklega fyrir afnot af regnhlífum og sólbekkjum á almenningsstöðum.

Gott að vita: Áður en samningur er gerður ætti ferðamaðurinn að vera upplýstur um almenna skilmála og hvaða þjónusta er innifalin, sem og hver kostnaðurinn er við aðra þjónustu. Ef það er veitt aukaþjónusta á staðnum (svo sem handklæðaleiga, aðgangur að hraðara interneti o.s.frv.), þá verður að upplýsa um þann kostnað á staðnum.

Aukakostnaður í pakkaferðum

Samkvæmt regluverki um pakkaferðir að þá getur ferðaskrifstofa hækkað verð um allt að 8% undir ákveðnum kringumstæðum. Slíkar hækkanir þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Kveðið er á um slíka heimild í samningnum/skilmálum með skýrum hætti.
  • Ferðamaður var upplýstur um þennan áskilnað áður en samningur varð skuldbindandi.
  • Ferðamanni var í samningi um pakkaferð gefinn sambærilegur réttur til verðlækkunar.
  • Tilkynning um breytingu á verði er tilkynnt eigi síðar en 21 degi áður en ferð hefst.
  • Nákvæmlega er tilgreint hvernig breytt verð skuli reiknað út og þær tilkynntar ferðamanni með skýrum og greinargóðum hætti ásamt rökstuðningi og útreikningi.
  • Verðbreyting er vegna breytinga á eldsneytisverði eða öðrum aflgjöfum, sköttum eða gjöldum sem lögð eru á ferðatengdu þjónustuna eða gengi erlendra gjaldmiðla sem máli skipta fyrir efni samningsins.

Ef hækkunin var hinsvegar fyrirsjáanleg þegar bókunin var gerð, eða eitt af ofangreindum skilyrðum er ekki uppfyllt, þá getur þú hafnað verðhækkuninni. Ef hinsvegar öll skilyrðin eru uppfyllt að þá getur ferðaskrifstofa hækkað verð án samþykkis ferðamanns.

Ef verðhækkun er umfram 8% að þá verður ferðaskrifstofan að upplýsa þig um hana og bjóða þér þann valkost að annaðhvort samþykkja verðhækkunina fyrir ákveðið tímamark eða draga þig út úr samningnum. Ef þú svarar ekki innan tímafrestsins þá er litið svo á að þú hafir samþykkt verðhækkunina. Það er því mikilvægt að bregðast hratt við ef þú vilt ekki lengur nýta þér ferðina.

Aukakostnaður flugfélaga

Flugfélag ber að upplýsa farþega áður en bókun er kláruð hver endanlegur kostnaður er, svo sem skattar, gjöld og annar kostnaður. Hinsvegar hafa mörg flugfélög byrjað að rukka fyrir ýmsa aukaþjónustu sem gjarnan var talin sjálfsagt að fylgdi miðaverðinu hér áður fyrr. Dæmi um slíkt er aukagjöld fyrir að innrita sig á flugvelli (í stað þess að farþegar innriti sig á netinu), innritaður farangur, sætisval, máltíðir o.s.frv.

Góð ráð hvernig hægt er að átta sig á og forðast aukakostnað

  • Lestu tilboð með gangrýnum augum og athugaðu hvað er innifalið áður en þú bókar. Ef þú ert í vafa, hafðu samband við hótelið eða ferðaskrifstofuna.
  • Lestu umsagnir frá öðrum viðskiptavinum til að athuga hvort einhver annar hefur kvartað yfir óvæntum aukakostnaði.
  • Óskaðu eftir reikningi frá hóteli fyrir lok dvalar til þess að sjá snemma hvort það séu einhver aukagjöld.
  • Ef þú þarft að borga fyrir að innrita þig eða skila af þér hótelherbergi, skrifaðu „Greitt með fyrirvara“ á reikninginn og sendu skriflegt erindi á yfirmenn hótelsins við fyrsta tækifæri.
  • Það gæti verið ráðlegt að bóka þar sem heimilt er að afbóka án gjalds. Það gæti verið aðeins dýrara – en mun spara þér hærri fjárhæðir ef þú þarft að hætta við.
  • Áður en þú kaupir sérstaka ferðatryggingu: Athugaðu hvort ferðatryggingin sem fylgir kreditkorti þínu dugi til.
  • Ef þú bókar „allt innifalið“ þá er minni hætta á ófyrirsjáanlegum matar- og drykkjarkostnaði.
  • Bókaðu með góðum fyrirvara.
  • Reyndu að forðast að fljúga til vinsælla flugvalla.
  • Bókaðu utan háannatímabils eða á virkum dögum – það er yfirleitt ódýrara.
  • Í stað þess að leggja á bílastæðum hótela: Legðu í frí almenningsbílastæði.