Í ljósi vaxandi verðbólgu, vöruskorts og hækkandi orkuverðs þá má gera ráð fyrir því að Black Friday hafi nokkur áhrif á neytendur þetta árið.
En gætið varhug, stundum eru slagorð líkt og „besti díllinn“ gerð til að blekkja neytendur og koma jafnvel frá fölsum vefverslunum sem eru í rauninni ekki starfandi. Hvatning þar sem fram kemur að einungis x vörur séu eftir á þessu verði er algeng leið til að setja þrýsting á neytendur til að ganga frá kaupum.
ECC-Netið hefur tekið saman fimm ráð sem ættu að hjálpa neytendum að vera öryggir og vel undirbúnir fyrir Black Friday og Cyber Monday.
1. Kannaðu hvort að netverslunin sé örugg og lögleg
Áður en þú verslar á netinu skaltu skoða vefsíðuna vel. Vertu viss um að skoða vel smáa letrið, upplýsingar um seljandann og skilmála.
- Eru þessar upplýsingar aðgengilegar og fullkláraðar?
- Er raunverulegt heimilisfang seljanda gefið upp og er það áreiðanlegt? Ekki hika við að skoða heimilisfangið með því að nýta þér kortaþjónustur á netinu (t.d. google maps).
- Prófaðu að hringja í símanúmer verslunarinnar sem er gefið upp. Sjáðu hvort það sé einhver sem svarar símanum.
- Skoðaðu umsagnir um vefsíðuna til að sjá hvort aðrir notendur hafi lent í einhverjum vandræðum við kaup á vefsíðunni – sem og hvort einhverjir skrifa jákvæðar umsagnir.
2. Kannaðu hvort þetta sé raunverulegt tilboð
Á meðan tilboðsdögum stendur þá ætti bæði að sjást upphaflegt verð sem og afsláttarverð. Í mörgum aðildarríkjum Evrópusambandsins þá ætti uppgefið upphaflegt verð að vera lægsta verð vörunnar á síðustu 30 dögum. Hér á Íslandi hefur sú lagabreyting ekki átt sér stað – en fyrirtækjum ber að sýna fram á að hafa selt vöruna á hinu upphaflega verði áður en hún var lækkuð.
Þá er einnig vert að gera verðsamanburð hjá öðrum verslunum til að sjá hvort að tilboðsverðið sé eins hagstætt og það lítur út fyrir að vera.
3. Ekki láta undan þrýstingi
„20 aðrir eru að skoða þessa vöru núna“ eða „Aðeins þrjár vörur eftir á þessu verði“: Margar vefsíður, smáforrit, samfélagsmiðlar og jafnvel leitarvélar nýta sér svokallað „dark pattern“ til að setja þrýsting á neytendur.
Sumar verslanir reyna jafnvel að hafa áhrif á kauphegðun með skeiðklukku sem telur niður, eða með „skammartakka“ með textum eins og „Nei, ég er kjáni og vill ekki græða með 20% afslætti“.
Þú gætir þurft að hafa sterkar taugar, en á endanum verður þú líklegast fegin/n að hafa ekki látið undan þrýstingnum.
4. Veldu örugga greiðslumáta
- Ef þú verslar á netinu, gættu þess að nota örugga nettengingu.
- Vertu viss um að vefslóðin byrji á „https“ og að „lokaður hengilás“- merkið birtist hjá slóðinni.
- Ekki vista banka-/kortaupplýsingar þínar á símanum þínum, tölvunni eða á vefsíðum.
- Stilltu hámarksgreiðslu fyrir hverja færslu á kreditkortinu þínu.
- Forðastu að greiða með bankamillifærslum.
5. Nýttu þér rétt þinn ef eitthvað fer úrskeiðis
Ef þú kaupir vöru af íslenskum seljanda (eða öðrum sem staðsettur er innan Evrópusambandsins) að þá eru til staðar ýmis regluverk sem vernda þig ef upp kemur t.d. galli.
Kvörtunarfrestur samkvæmt lögum er að lágmarki 2 ár. Ef varan er gölluð getur þú óskað eftir því við seljanda að hann geri við hana eða skipti henni út. Ef það er ekki í boði þá getur þú óskað eftir endurgreiðslu.
Hafðu svo í huga: Þegar þú kaupir á netinu að þá hefur þú almennt 14 daga rétt á að hætta við kaup og skila henni. Hægt er að lesa nánar um rétt þinn til að skila vöru sem keypt er á netinu hér.