Samkvæmt frétt sem birtist á heimasíðu Neytendasamtakanna að þá hafa samtökin sett bílaleiguna CC bílaleiga ehf. í „skammarkrókinn“. Þá ráða samtökin neytendum frá því að eiga í viðskiptum við fyrirtækið.
Ástæðan fyrir þessu er að fyrirtækið hefur í þrígang tapað málum sem farið hafa fyrir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. En í öllum þremur tilfellunum hefur fyrirtækið neitað að verða við kröfum neytenda.
Samkvæmt frétt samtakanna að þá voru kvartanir neytenda fjölbreyttar og varða háar fjárhæðir.
Í einu málinu hafði neytandi afbókað bílaleigubíl en var þó látinn greiða fullt verð. Nefndin taldi neytandann eiga rétt á 75% endurgreiðslu að fjárhæð 166.500 kr. enda væru afbókunarskilmálar skýrir.
Í öðru málinu komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið ætti að endurgreiða neytanda 215.000 kr. vegna dráttarþjónustu á biluðum bílaleigubíl.
Í þriðja málinu féllst nefndin á kröfu neytanda um endurgreiðslu að fjárhæð 73.900 kr. vegna tjóns á bílaleigubíl. Óumdeilt var í málinu að tjón hafi orðið á bifreiðinni en nefndin taldi bílaleiguna ekki hafa sýnt fram á umfang þess fjárhagslegs tjóns sem hún varð fyrir.
Hægt er að sjá lista yfir fyrirtæki sem eru í skammarkrók Neytendasamtakanna hér.