Online purchase

Það getur verið þægilegt og hagkvæmt að kaupa af erlendum seljendum í gegnum netið. Það er þó ýmislegt sem þarf að hafa í huga við slík kaup. Með allri þeirri tækni sem stendur okkur til boða í dag er auðvelt að grafast fyrir um seljendur og reynslu annarra af þeim með einföldu „gúggli“, en auk þess er mikilvægt að vera meðvitaður um þau lagalegu réttindi sem fylgja netkaupum. Gera má kaup á netinu mun einfaldari og öruggari með því að hafa í huga nokkrar gullnar reglur sem gilda um slík viðskipti. 

Þegar vörur eru keyptar á netinu er neytendaréttur að jafnaði nokkuð rýmri en þegar vara er keypt í verslun, sér í lagi hvað varðar rétt neytenda til að skila vöru. Réttur neytenda til ýmissa upplýsinga er líka mun ríkari við kaup á netinu.

Seljandi hefur ríka skyldu til að upplýsa neytandann á sölusíðu um flest allt sem máli skiptir, svo sem um eiginleika vörunnar en einnig um rétt neytanda til að skila vörunni. Seljandi verður að gefa upp nafn fyrirtækis, netfang, símanúmer og heimilisfang. Vanti þessar upplýsingar ætti neytandi að forðast viðskipti við viðkomandi.

Eftirfarandi eru upplýsingar sem neytandi á rétt á:

  • Helstu eiginleikar vöru eða þjónustu sem samningur fjallar um.
  • Nafn seljanda og heimilisfang, ásamt símanúmeri, bréfsímanúmeri og netfangi hans, eftir því sem við á, til að neytandi hafi tækifæri til að ná fljótt sambandi við seljanda og eiga samskipti við hann á skilvirkan hátt.
  • Heildarverð vöru eða þjónustu, eða, þegar varan eða þjónustan er þess eðlis að ekki er hægt með góðu móti að reikna verðið út fyrirfram, á hvern hátt verðið er reiknað út.
  • Fyrirkomulag á greiðslum, afhendingu og hvenær hún fer fram og, eftir því sem við á, framkvæmd og meðferð kvartana af hendi seljanda.
  • Skilyrði, tímamörk og tilhögun réttar til að falla frá samningi, ef hann er fyrir hendi.
  • Að neytandi skuli, eftir atvikum, bera kostnað af því að skila vöru ef hann fellur frá samningi og, í tilviki fjarsölusamninga, kostnað við að skila vöru sem ekki er hægt að endursenda í pósti.
  • Kostnaður sem neytandi getur borið ef fallið er frá samningi.
  • Að neytandi hafi ekki rétt til að falla frá samningi ef sá réttur er ekki fyrir hendi.
  • Lögbundin úrræði neytenda vegna galla á söluhlut eða þjónustu.
  • Gildistími samningsins, eftir því sem við á, eða, ef samningurinn er ótímabundinn eða endurnýjast sjálfkrafa, skilyrði fyrir uppsögn hans.
  • Lágmarkstímabil skuldbindinga neytanda samkvæmt samningnum, eftir því sem við á.
  • Hvort fyrir hendi sé kerfi fyrir kvartanir og úrlausn mála utan dómstóla sem seljandi fellur undir og, ef svo er, hvernig aðgangur fæst að því.

Þótt flestar verslanir leyfi fólki að skila og skipta vörum þá er ekkert í lögum sem tryggir neytendum slíkan rétt nema vara sé gölluð. Flestar verslanir gefa fólki þó tækifæri á að skipta og skila gegn inneignarnótu en fá, ef nokkur, dæmi eru um að seljandi endurgreiði vöru sem er skilað.

Þegar verslað er á netinu er réttur neytandans betur tryggður að þessu leyti því hann á yfirleitt rétt á að skila vöru og fá endurgreiðslu. Þannig kemur fram í lögunum að neytandi hafi fjórtán daga frest til að falla frá samningi sem gerður er við kaup á netinu. Þarna er tekið tillit til þess að neytandinn hefur ekki sjálfur tækifæri til að skoða vöruna með eigin augum, prófa hana eða máta. Sendingarkostnaður, þegar vöru er skilað, fellur alla jafna á neytandann og ef um er að ræða innflutta vöru er líklegt að neytandinn hafi greitt virðisaukaskatt af vörunni. Það á að vera hægt að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan ef sýnt er fram á að varan sé send aftur til seljanda.

Neytandinn þarf að tilkynna ákvörðun sína um að hætta við kaup til seljandans með sannanlegum hætti og áður en fresturinn til að falla frá kaupum rennur út. Það er neytandans að sanna að hann hafi tilkynnt seljanda að hann vilji hætta við kaupin og því er best að gera það með skriflegum hætti, t.d. í tölvupósti.

Það eru þó dæmi um kaup á netinu, eða annarri fjarsölu, þar sem neytandi á ekki rétt á að falla frá kaupum. Hér eru nokkur dæmi um slíkt:

Réttur til að falla frá samningi tekur EKKI til eftirtalinna tilvika:

  • Afhendingar á vöru eða þjónustu þar sem verðlag er háð sveiflum á fjármálamarkaði og seljandinn hefur ekki stjórn á.
  • Afhending á vöru sem er framleidd samkvæmt forskrift neytandans og ber skýrt auðkenni hans, t.d. sérpöntun af einhverju tagi.
  • Afhendingar á vöru sem líklegt er að rýrni eða úreldist fljótt.
  • Afhendingar á innsiglaðri vöru sem ekki er hægt að skila vegna lýðheilsusjónarmiða eða af hreinlætisástæðum hafi innsigli verið rofið eftir afhendingu.
  • Afhendingar á vöru sem eðlis síns vegna er ekki unnt að aðskilja frá öðrum vörum eftir afhendingu.
  • Afhendingar á innsigluðum hljóð- eða myndupptökum eða tölvuhugbúnaði sem neytandinn hefur rofið innsiglið á eftir afhendingu.
  • Afhendingar á dagblöðum eða tímaritum að undanskildum áskriftarsamningum um afhendingu á slíku efni.
  • Samninga sem eru gerðir á opinberu uppboði.

Rétt er að hafa í huga að þegar vörur eru keyptar frá öðrum löndum getur bæst við töluverður kostnaður, svo sem sendingarkostnaður, umsýslugjald og sendingargjald, og þá getur þurft að greiða virðisaukaskatt af vörunni. Á postur.is, undir „reiknivél erlendra sendinga“, er að finna góða reiknivél sem gefur til kynna hver endanlegur kostnaður er.

Þá er rétt að hafa í huga að margir seljendur hér á landi bjóða ókeypis sendingar, sérstaklega ef keypt er fyrir ákveðna upphæð, en slíkt tilboð gildir þó ekki alltaf um sendingar út á land.

Lögin gilda í langflestum tilfellum þegar neytendur eiga viðskipti á netinu (Lög um neytendasamninga nr. 16/2016) en þó eru á því undantekningar. Hér eru dæmi um kaup sem falla utan gildissviðs laganna:

  • Happdrætti
  • Samningar um fjármálaþjónustu
  • Tilurð, kaup eða framsal fasteigna eða réttar til fasteigna
  • Smíði nýrra bygginga eða verulegar breytingar á byggingum sem eru til staðar ásamt leigu á húsnæði til íbúðarnota
  • Samningar um pakkaferðir
  • Skiptileigusamningar fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum o.fl.
  • Samningar sem gerðir eru með aðstoð sjálfsala eða sjálfvirkra verslana
  • Samningar sem eru gerðir við fjarskiptafyrirtæki um opinbera símasjálfsala eða um eina síma-, net- eða bréfsímatengingu sem neytandi hefur komið á
  • Útvegun matvöru, drykkja eða annarrar vöru til daglegra heimilisnota sem seljandi sendir heim til neytenda, til dvalarstaðar hans eða vinnustaðar með sendlum sem fara tíðar og reglubundnar ferðir
  • Farþegaflutningar
  • Ef greiðsla neytanda fer ekki yfir 7.045 kr.

Þegar neytandi fellur frá samningi sem gerður er á netinu, hættir með öðrum orðum við kaupin, þá skal seljandi endurgreiða honum allar greiðslur sem hann innti af hendi, þar á meðal sendingarkostnað. Þetta skal seljandi gera eigi síðar en fjórtán dögum frá því neytandi tilkynnti seljanda um ákvörðun sína að falla frá samningnum. Seljandi þarf þó ekki að endurgreiða viðbótarkostnað ef neytandi hefur óskað sérstaklega eftir öðrum afhendingarmáta en þeim ódýrasta sem seljandi bauð. Neytandi skal að sama skapi endursenda vöru eða afhenda hana seljanda án ástæðulausrar tafar og ekki seinna en fjórtán dögum frá þeim degi sem hann tilkynnti seljanda að hann ætlaði að falla frá samningnum. Neytandinn skal bera beinan kostnað af því að skila vörunni nema seljandi hafi samþykkt að bera kostnaðinn eða ef seljandi hefur ekki upplýst neytanda um að hann skuli bera þennan kostnað.

Neytendastofa er eftirlitsaðili með lögunum og getur beitt ákveðnum viðurlögum og því er rétt að beina ábendingum þangað ef upp koma álitamál. Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við Neytendasamtökin og fengið upplýsingar og aðstoð ef þeir verða þess áskynja að fyrirtæki virða ekki þennan rétt.

Ef vara er keypt af fyrirtæki innan Evrópusambandsins, Noregi eða í Bretlandi þá geta neytendur leitað til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar (ECC), sem Neytendasamtökin hýsa. ECC veitir neytendum sem lenda í deilum vegna viðskipta yfir landamæri ráðleggingar og aðstoð ef þeir lenda í vandræðum í samskiptum við erlenda seljendur.

Góð ráð við netkaup

  • Skoðaðu fleiri netverslanir (gerðu verðsamanburð) og kannaðu reynslu annarra
  • Gættu að því hver það er sem býður vöruna til sölu
  • Lestu skilmála seljanda
  • Athugaðu vel hvaða greiðslumátar eru í boði
  • Ekki gefa upp meiri persónuupplýsingar en þörf er á
  • Athugaðu vel heildarverð og afhendingartíma

Skoðaðu fleiri netverslanir (gerðu verðsamanburð) og kannaðu reynslu annarra

Það getur verið mikill munur á verði, þjónustu og áreiðanleika netverslana. Það er gott að hafa það sem vísireglu við kaup á netinu, að ef seljandi býður svo gott tilboð á vöru að það er of gott til að vera satt eða of gott til að hafna, þá er ástæða til að hafa sérstakan vara á. Slík tilboð eru oft á tíðum ekkert annað en hrein og klár svik.

Leitaðu eftir greinargóðri lýsingu á vörunni og hafðu í huga að þú getur ekki handleikið vöruna fyrir kaupin.

Þá er góð regla að „gúggla“ seljanda áður en viðskipti fara fram. Neytendur sem hafa verið sviknir í viðskiptum eru duglegir að tjá sig um þá reynslu á netinu og því getur skipt miklu að sjá hvaða reynslu aðrir hafa af viðkomandi seljanda.

Gættu að því hver það er sem býður vöruna til sölu

Þegar keypt er af viðurkenndum söluaðila sem hefur fasta starfsstöð og er þekktur er áhættan minnkuð verulega. Þú skalt leita eftir nafni seljanda, heimilisfangi hans og símanúmeri á heimasíðunni. Einnig er það sjálfsögð krafa neytenda sem kaupa vöru á netinu að hægt sé að hafa samband við seljanda í gegnum tölvupóst.

Lestu skilmála seljanda

Skilmálar seljanda geta m.a. gefið upplýsingar um hvernig seljandinn hagar málum varðandi skilarétt og afpantanir. Ef þér finnst skilmálarnir vera ósanngjarnir eða finnst þú ekki geta fallist á þá, þá skaltu hætta við kaupin. Skilmálar mega hins vegar ekki veita þér lakari rétt en þú hefur lögum samkvæmt og seljendur í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins eru bundnir af Evrópureglum. Í löndum utan EES-svæðisins eru réttindi neytenda við netkaup hins vegar mismunandi og geta veitt lakari rétt en samkvæmt íslenskum lögum.

Athugaðu vel hvaða greiðslumátar eru í boði

Ekki gefa upp kortaupplýsingar fyrr en þú hefur pantað vöruna sem þú ætlar að kaupa. Þú skalt ekki borga með því að millifæra pening inn á reikning seljanda eða með því að senda pening með fyrirtækjum sem bjóða þjónustu með peningasendingar milli landa. Alla jafna er öruggast að greiða með kreditkorti, enda getur þá jafnvel komið til þess að kortafyrirtækið þurfi að endurgreiða þér komi t.d. til þess að varan berist aldrei. Þú skalt þó athuga hvort fyrirtækið er með örugga síðu áður en þú borgar beint með kreditkorti. Hægt er að sjá það ef lítill gulur lás er í jaðri gluggans en það er svokallað SSL-secure. En varastu fölsun, ef þú smellir á lásinn á öryggisskírteinið að birtast. Einnig er gott að vita að öruggar síður hafa fremst í vefslóðinni https í stað http á venjulegum síðum.

Ekki gefa upp meiri persónuupplýsingar en þörf er á

Við kaup á netinu er gott að hafa í huga þá grundvallarreglu að seljandinn þarf ekki á öðrum upplýsingum að halda en nafni þínu, heimilisfangi og tölvupóstfangi. Seljandi getur þurft að hafa samband við þig og því þarf að gefa upp tölvupóstfang. Varastu að gefa upp meiri upplýsingar þar sem þú veist aldrei hvað seljandinn mun gera við þær upplýsingar.

Athugaðu heildarverð og afhendingartíma

Athugaðu að þú átt að fá uppgefið heildarverð, m.a. með flutningskostnaði, og upplýsingar um hvernig varan verður send til þín, áður en þú borgar fyrir hana. Verð vöru á vefsíðu inniheldur oftast ekki flutningskostnað, þar sem hann er mismunandi eftir því hvar kaupandi býr. Þú verður einnig að muna að ef þú ert að kaupa vöru erlendis frá, munu bætast við vöruverðið aðflutningsgjöld, virðisaukaskattur og tollmeðferðargjald, og sé um tiltölulega ódýra vöru að ræða geta þessu gjöld hæglega orðið hærri en upphaflega vöruverðið.

Netverslun er sífellt að aukast enda býður það upp á viss þægindi að hægt sé að kaupa varning án þess að þurfa að fara út úr húsi. Mikið er um að neytendur kaupi af erlendum vefsíðum þar sem gjarnan er hægt að gera góð kaup.

Þrátt fyrir að netverslun geti verið þægileg leið til að kaupa vörur þá fylgir slíkum kaupum ekki alltaf jákvæð upplifun. Evrópulöggjöf veitir neytendum vissa vernd þegar keyptar eru vörur innan Evrópusambandsins, á Íslandi eða í Noregi, en þó er alltaf hætta á að neytendur lendi í gildrum svokallaðra svindlvefsíðna. Því er mikilvægt að neytendur séu vel vakandi.

Algengustu svikamálin á netinu sem kvartað er yfir til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar eru tengd kaupum á raftækjum, notuðum bílum, fölsuðum varningi og áskriftum sem sagðar eru endurgjaldslausar.

Óprúttnir aðilar finna sífellt nýjar leiðir til að hafa fé af grandalausum neytendum en þessar svindlleiðir bera ýmis sameiginleg einkenni. Fólk er t.d. gjarnan blekkt með tilkynningu um að það hafi unnið einhver verðlaun. Gott er að hafa eftirfarandi í huga til að meta hvort verið sé að reyna að svindla á þér:

  • Tilkynning um að þú hafir unnið verðlaun þegar þú hefur ekki tekið þátt í neinni keppni.
  • Tilkynning um verðlaun kemur í óvænti símtali, bréfi eða tölvupósti.
  • Óskað er eftir því að verðlaunahafinn greiði áður en verðlaun eru afhent.
  • Óskað er eftir því að verðlaunahafinn staðfesti verðlaunin strax með því að gefa upp banka- eða kreditkortaupplýsingar.
  • Ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt, þá er það yfirleitt svindl.

 

Merki um trausta vefverslun

Það er merki um trausta vefverslun þegar sjá má ítarlegar upplýsingar um seljandann, hvar og hvernig hægt er að hafa samband við hann, heimilisfang, hvenær fyrirtækið var skráð og skráningarnúmer þess. Síður þar sem litlar sem engar upplýsingar er að finna um seljandann geta gefið til kynna að um svindlsíðu sé að ræða, sér í lagi ef verð á vörunum er óeðlilega lágt. Á traustum vefsíðum ættu einnig að vera birtar upplýsingar um hvernig neytendur getur lagt fram kvörtun og um réttindi þeirra, t.d. um rétt til að hætta við kaup innan ákveðins frests o.s.frv.

Einnig getur verið ráðlegt að kanna hvort einhverjar umsagnir um verslunina megi finna á netinu, en ef vefsíðan er lögmæt ættu að vera til einhver jákvæð ummæli um hana. Neytendur ættu að hafa varann á gagnvart vefsíðum sem hafa nýlega verið settar upp, en það er nokkuð algengt að svikahrappar setji upp vefsíður og taki þær svo niður og setji nýjar upp þegar upp kemst um svindlið. Einnig má finna á netinu ýmsar vefsíður sem sérhæfa sig í því að kanna trúverðugleika annarra vefsíðna, svo sem www.scamadviser.com.

Það er gott ráð að athuga hvort vefsíða sé örugg, en öruggar vefsíður hafa vefslóð sem byrjar á „https://“ í stað http://. Þar stendur stafurinn „s“ fyrir secure, eða öruggt. Einnig er mjög mikilvægt að tölva sem notuð er til að kaupa á netinu sé varin fyrir vírusum og njósnahugbúnaði (e. spyware).

 

 

Farðu varlega með kortaupplýsingar

Áður en neytandi tekur lokaákvörðun um að fjárfesta í vöru á netinu er gott að hafa í huga að allar greiðslur skulu framkvæmdar með eins öruggum hætti og mögulegt er, svo sem með kreditkorti eða notkun á greiðslumiðlunarþjónustu svo sem Paypal. Ef þú þekkir ekki seljandann skaltu forðast að framkvæma greiðslu með bankamillifærslu. Kreditkortaupplýsingar ættu aldrei að vera sendar með tölvupósti. Það er einnig mikilvægt að neytendur kynni sér vel skilmála kaupanna áður en gengist er við þeim og athugi sérstaklega vel hvort einhverjar uppsagnar- eða áskriftarkvaðir fylgi.