Travel

Flest erindi sem berast ECC á Íslandi varða ferðalög með einum eða öðrum hætti. Þó yfirleitt gangi hlutirnir snurðulaust fyrir sig eru samt ýmis vafamál og vandræði sem geta komið upp t.a.m. í tengslum við hótelbókanir, flugferðir, kaup á alferðum eða símnotkun erlendis. Því er gott að kynna sér málin áður en lagt er í ferðina og ná sér í Ferða „app“ ECC-netsins sem er ókeypis snjallsímaforrit sem veitir svör við ýmsum spurningum sem upp koma meðan á ferð stendur. Komi svo eitthvað upp í fríinu er sjálfsagt að hafa samband við ECC-netið og fá aðstoð við að leysa úr málum.

Rétt er að hafa í huga að ECC-netið annast bara kvartanir vegna viðskipta við seljendur í öðrum Evrópuríkjum. Sé uppi ágreiningur vegna viðskipta neytenda sem búsettir eru á Íslandi við íslenska ferðaþjónustuaðila er því réttara að hafa samband við Neytendasamtökin.

Alferð/Pakkaferð er samsettur pakki sem inniheldur alla vega tvö atriði af eftirtöldu: flutningi, gistingu eða annarri þjónustu við ferðamenn sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar. Þá er það skilgreiningaratriði að þjónustan taki til alla vega 24 klukkustunda eða að í henni felist gisting. Dæmigerðar sólarlandaferðir sem keyptar eru í einum pakka (iðulega flug og gisting og jafnvel hálft eða fullt fæði) teljast því t.a.m. vera alferðir. Um alferðir gilda sérstök lög sem Neytendastofa hefur eftirlit með. Alferðalögin byggja á sérstakri Evróputilskipun um pakkaferðir, sem var sett í þeim tilgangi að samræma reglur aðildarríkjanna um pakkaferðir, og má því ætla að réttindi neytenda við kaup á alferð séu sambærileg í öllum aðildarríkjum EES. Alferðalögin kveða m.a. á um ýmis vanefndaúrræði neytenda ef ferðin er ekki eins og um var samið en gott er að hafa í huga að hafi neytendur eitthvað við framkvæmd alferðar að athuga er ákaflega mikilvægt að kvarta strax við fararstjóra eða ferðasala.

Hér að neðan má sjá helstu atriði laganna er varðar pakkaferðir. Við ráðleggjum ferðamönnum að skoða lögin, eða hafa samband við Neytendasamtökin.

Réttur ferðamanns til að afbóka

Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að ferðamaður geti afpantað pakkaferð áður en hún hefst gegn greiðslu sanngjarnar þóknunar. Heimilt er að tilgreina sanngjarna þóknun fyrir afpöntun ferðar sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala.

Með öðrum orðum þá geta ferðamenn afpantað ferðir fyrir upphaf pakkaferðar en greiðsla fyrir slíka afpöntun fer eftir skilmálum pakkaferðasamnings.

Í 3. mgr. sömu greinar kemur þó fram að ekki sé heimilt að taka slíka þóknun ef afpöntun er vegna „óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar.

Framkvæmd pakkaferðar

Ferðaskrifstofa sem selur ferðamanni pakkaferð ber ábyrgð á framkvæmd þeirrar ferðatengdu þjónustu sem er innifalin í samningi í pakkaferðinni.

Úrbótaskylda og krafa um afslátt

Ef ferðamaður verður var við vanefnd á þjónustu samkvæmt pakkaferð þá ber honum að tilkynna það til ferðaskrifstofunnar án tafar. Ferðaskrifstofan hefur þá færi innan hæfilegs frests til að ráða bót á vanefndinni.

Ef ekki er hægt að ráða bót á vanefndinni, eða þá aðeins með þjónustu sem er lakari að gæðum en tilgreint var í pakkaferðarsamningnum, þá á ferðmaður rétt á afslætti sem jafngildir mismuninum á þeirri þjónustu sem samið var um og þeirri sem var veitt.

Riftun pakkaferðar

Ef verulegur hluti pakkaferðarsamningsins er ekki veittur eða er verulega ófullnægjandi getur ferðamaður rift samningi um pakkaferð og, eftir því sem við á, krafist afsláttar og skaðabóta. Þannig þarf vanefndin að vera veruleg þannig að hægt sé að beita þessu úrræði. Smávægilegar athugasemdir myndu þannig almennt ekki teljast nægjanlegar til að rifta samningi.

Ferðavenjur eru að breytast og nú eru margir sem velja að fara ekki í skipulagðar alferðir heldur bóka alla þætti frísins; flug, hótel og bílaleigubíla, sjálfir á netinu. Það er einfalt og getur oft verið hagkvæmt auk þess sem neytendur velja þá algerlega sjálfir hvert þeir vilja fara, hvar þeir vilja gista og hvenær þeir vilja fljúga. Yfirleitt ganga slík netviðskipti snurðulaust fyrir sig, flugið fer á réttum tíma og hótelið er í raun og veru til og herbergið er eins og því var lýst á netinu. Gott er þó að lesa ráðleggingar um kaup á netinu og það er ákaflega góð regla að leita alltaf upplýsinga um seljandann, t.d. með því að „gúggla“ hann því þó flestir séu heiðarlegir geta leynst svartir sauðir inn á milli.

Sé keypt alferð af ferðaskrifstofu og hótelgisting er hluti af pakkanum er rétt að kvarta við ferðasalann auk hótelsins sjálfs ef hótelið uppfyllir ekki væntingar eða þjónustu þess er ábótavant. Ef hins vegar neytendur panta sjálfir hótel er gott að hafa í huga að leita sér upplýsinga og sjá hvað aðrir sem gist hafa á hótelinu segja um það áður en kaup á gistingu fara fram. Afar mikilvægt er að lesa vel skilmála viðkomandi hótels, en t.a.m. er mjög mismunandi hvað hótel innheimta í afbókunargjald, í mörgum tilvikum er hægt að afbóka án kostnaðar þar til nokkrum dögum fyrir áætlaðan dvalartíma, en í öðrum tilvikum þarf að greiða hluta kostnaðar eða jafnvel heildarkostnað gistingarinnar mæti gestir ekki á staðinn. Þetta gjald ætti að koma fram í upplýsingum um hótelið strax við bókun og sé eitthvað tvísýnt um að fólk komist í ferðina er væntanlega öruggara að panta herbergi án afbókunargjalds, jafnvel þó það geti verið eitthvað dýrara. Einnig er gott að hafa í huga að reglur um stjörnugjafir hótela geta verið mismunandi, þ.e. þriggja stjörnu hótel er ekki sjálfkrafa með sömu þægindi og aðstöðu hvar sem er í Evrópu, heldur getur það verið afar mismunandi milli landa hvaða skilyrði hótel þarf að uppfylla til að fá t.d. þrjár stjörnur. Fyrir nokkru gaf ECC-netið út skýrslu (á ensku) um það hvernig flokkun hótela er háttað í hverju landi fyrir sig og getur verið gagnlegt að skoða þá skýrslu áður en ákvörðun er tekin um það hve margar stjörnur hótelið þarf að vera.  Sumarið 2010 gaf netið svo út skýrslu þar sem fram kemur hvaða lágmarkskröfur hótel í Evrópu þurfa að uppfylla til að teljast þriggja stjörnu og í henni er því að finna upplýsingar um það hvers má vænta þegar pantað er þriggja stjörnu hótel.

Áður var það svo að þegar farið var með farsímann til útlanda gat símakostnaður verið stór hluti ferðakostnaðarins. Vissulega er mjög þægilegt að geta tekið símann með sér í viðskiptaferðina eða fríið og hann tengist sjálfkrafa símfyrirtæki í landinu sem farið er til. Hvað varðar kostnaðinn er það nú svo að ákveðnar reglur gilda um verðþak á reikisímtölum, þ.e. sé tekið við símtali erlendis eða hringt milli landa úr íslenskum síma. Má því gera ráð fyrir að kostnaður vegna símtala meðan dvalið er erlendis hafi lækkað töluvert. Ítarlegar upplýsingar um reiki og þær reglur sem gilda er að finna á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar.  Gott er að kynna sér vel hvað símtöl kosta milli landa, en einnig er gott að hafa í huga að það er mun ódýrara að taka við símtali í útlöndum heldur en að hringja sjálfur, og því ágætt að biðja vini og ættingja um að hringja fremur en að hringja sjálfur. Þá er mikilvægt að gæta þess að símtæki og tölvur með netpungi séu ekki stilltar á sjálfvirkt niðurhal gagna, en slíkt getur verið mjög kostnaðarsamt. Einnig er góð hugmynd að aftengja talhólf áður en farið er til útlanda en það getur verið dýrt að taka við skilaboðum meðan dvalið er erlendis og kemur sá kostnaður fólki oft á óvart. Þá er mikilvægt að hafa í huga að umrædd verðþök gilda eingöngu um símtöl innan EES-svæðisins, en ekki um símtöl frá öðrum löndum.

Þegar farið er til útlanda er mikilvægt að huga að því að vera með gilt vegabréf.  E Annars geta ferðalangar átt á hættu að vera neitað um far. Jafnvel þó ferðast sé innan Schengen (Þýskaland, Frakkland, Spánn o.s.frv.) þarf að hafa gild ferðaskilríki (vegabréf eru hér tekin gild en ekki önnur íslensk skilríki). Sé lítið eftir af gildistíma vegabréfsins er gott að kanna sérstaklega hvort viðkomandi land er með einhver sérstök landgönguskilyrði, þegar kemur t.a.m. að gildistíma vegabréfa. Sé ætlunin að ferðast utan Evrópusambandsins er algengt að gildistími vegabréfs þurfi að vera a.m.k. sex mánuðir umfram þann tíma sem ætlunin er að dvelja í landinu. Þá er einnig mikilvægt að kynna sér hvort vegabréfsáritunar sé þörf, en því miður kemur það stundum fyrir að ferðamönnum sé snúið aftur heim vanti þá slíka áritun. Ítarlegar upplýsingar um vegabréf má finna á heimasíðu Þjóðskrár Íslands.

Einnig getur komið sér vel að vera með Evrópska sjúkratryggingakortið veikist ferðamenn eða lendi í slysi innan EES-svæðisins. Hægt er að sækja um slíkt kort hjá Sjúkratryggingum Íslands